Friday, December 23, 2011

Þorláksmessukvöld

Mér finnst alltaf eitthvað svo töfrandi við Þorláksmessukvöld.  Það er svona mestallt búið en samt slatti eftir.

Núna er t.d. hangikjöt  og hrísgrjón í potti, hryggjargrind inni  í ofni að ristast (til að gera soð í sósuna).

Allt orðið hreint og nokkuð fínt.  Á eftir að pakka inn pakkanum fyrir bóndann og  útbúa ratleik fyrir  Davíð í fyrramálið.

Notaleg jólatónlist í spilaranum.

Ég er alin upp við að setja jólatréð upp á þorláksmessukvöld  og  hlusta á jólakveðjurnar  og hangikjötsangan í loftinu.  Nú setjum  við setjum tréð upp 1-2 dögum fyrr og ég tek smá jólakveðurispu um daginn.  Svona skapar maður sér sínar eigin hefðir.

Þegar ég var  barn þá var aðfangadagur óralengi að líða þrátt fyrir að mamma gerði sitt besta til að stytta daginn.  Við systurnar bárum til dæmis út jólakortin  í nærliggjandi hús, oft syngjandi jólalög.  Og svo fórum við í kirkjugarðinn með skreyttar greinar og kerti.  Nú líður dagurinn ansi hratt hjá mér en aftur á  móti afar hægt hjá einkasyninum og ég reyni að gera mitt besta til að stytta daginn.


Kæru vinir ég sendi ykkur mínar bestu óskir um gleðileg jól og gott og farsælt komandi ár.
No comments:

Post a Comment